Fjögur stig að reykleysi

/ Fjögur stig að reykleysi

Eflaust hafa flestir heyrt um reykingafólk sem hefur reykt tvo pakka á dag og skyndilega einn daginn lagt sígarettuna alveg á hilluna. Við skulum taka ofan fyrir þeim. Samkvæmt Reykleysislínunni, sem er reykleysishjálparlína Landlæknisembættisins í Danmörku, hafa hins vegar 75% alls reykingafólks hugsað um að hætta innan síðustu 6 mánaða, þannig að þeir sem fara skyndilega í reykbindindi hafa sennilega samt sem áður verið í þó nokkurn tíma á íhugunarstiginu. Það er nefnilega ákveðið ferli að leggja sígarettuna á hilluna og það hefst löngu áður en drepið er í síðustu sígarettunni. Fjöldi fólks þarf að fara í gegnum stigin mörgum sinnum til að ná reykleysi og því styttri tími sem er á milli hvers reykbindindis þess meiri líkur eru á varanlegu reykleysi.

Íhugunarstig: Gerðu lista yfir alla kostina við reykleysi
Á íhugunarstiginu veltir fólk fyrir sér að hætta að reykja. Það vegur og metur alla kosti og óumflýjanleg óþægindi sem fylgja fráhvarfseinkennum vegna nikótínskorts. Margir reyna að draga úr reykingum á íhugunarstiginu með því að fækka sígarettum, t.d. um eina til fimm sígarettur á viku. Hins vegar falla þeir oft aftur í gamla reykingamynstrið. Samkvæmt Reykleysislínunni fellur fólk aldrei aftur á sama stig og fyrir íhugunarstigið ef það hefur einhvern tíma náð íhugunarstiginu. Bara það að íhuga reykleysi er því skref fram á við.

Ákvörðunarstig: Gerðu ákveðna áætlun um hvenær þú ætlar að reykja síðustu sígarettuna
Þegar á ákvörðunarstigið er komið byrjar fólk að gera ákveðna áætlun um hvenær það ætlar að hefja reykbindindi. Hvenær á að reykja síðustu sígarettuna, hvort þörf er á aðstoð og þá hvernig aðstoð – nikótínlyf, reykleysisnámskeið eða stuðning frá fjölskyldu eða vinum. Flestir þurfa á aðstoð að halda til að átta sig nákvæmlega á því hvernig þetta kemur til með að ganga fyrir sig. Því að oftast eru stór áform um reykleysi en minna hugsað um ýmis smáatriði sem geta verið mikilvæg á þeirri vegferð eins og t.d. hvort eigi að koma öskubakkanum úr augsýn eða henda honum eða hvort eigi að reykja síðustu sígarettuna í pakkanum eða fastsetja ákveðna dagsetningu til að hefja reykbindindi.

imagesFramkvæmdastig: Hugsaðu um kostina
Framkvæmdastigið hefst þegar áætlunin liggur fyrir. Nú er reykleysi orðið að veruleika og mikilvægt að tapa ekki sjónar á því hvers vegna hætt er að reykja þegar fráhvarfseinkennin láta á sér kræla. Það er að segja hugsa um alla kostina sem skráðir voru á listann á íhugunarstiginu. Betri heilsa, sparnaður, betra lyktar- og bragðskyn, vellyktandi fatnaður og heimili. Allt sem minnir mann á að þetta er skynsamleg ákvörðun. Í byrjun er skynsamlegt að forðast að koma sér í aðstæður sem voru áður tengdar reykingum. Ef maður hefur haft það fyrir venju að sitja í sófanum á kvöldin og horfa á sjónvarpið með sígarettu í hönd getur verið góð hugmynd að horfa á sjónvarpið í svefnherberginu, þ.e.a.s. ef það hefur áður verið reyklaust svæði. Einnig mætti íhuga að færa til húsgögn til að sigrast á venjum sem eru bundnar við ákveðna staði í íbúðinni.

 

Viðhaldsstig: Klappaðu sjálfri/sjálfum þér daglega á öxlina
Á viðhaldsstiginu er mikilvægt að halda áfram að hrósa sér fyrir velgengni. Margir gleyma að það er sannarlega vel af sér vikið að hafa náð því að verða reyklaus. Eftir hálft ár hættir fólk smám saman að líta á sig sem reykingafólk og skilgreinir sig ekki lengur sem einstakling sem er að hætta að reykja.