Heilsufarslegur ávinningur af reykleysi
Reykingar geta haft í för með sér margvísleg heilbrigðisvandamál. Þú kannast sennilega við flest þeirra. Reykingar eru skaðlegar fyrir hjarta- og æðakerfi, auka líkur á krabbameini og öðrum alvarlegum sjúkdómum og eru skaðlegar fyrir umhverfið. Þær eru jafnframt dýrar og sá þáttur er reyndar mörgum erfiður. Það er ekki einungis líkamlegt ástand og heilsa sem bíður skaða af sígarettufíkninni og breytist verulega til batnaðar þegar reykingum er hætt fyrir fullt og allt. Hjá þeim sem tekst að hætta að reykja eflist nefnilega einnig sjáfstraust og vellíðan, sem styrkir andlega líðan.
Vegferð líkamans að betri heilsu
Litlu skrefin
Þegar skömmu eftir að þú hefur drepið í síðustu sígarettunni byrjar líkaminn að taka við sér og einungis 20 mínútum eftir að þú hefur blásið frá þér síðasta reyknum verður blóðþrýstingur og hjartsláttur aftur eðlilegur. Fyrstu litlu skrefin hafa verið tekin í átt að heilsusamlegra líferni og líkaminn hefur þegar hafið heilsubætandi vegferð. Sólarhring eftir síðustu sígarettuna hefur orðið marktæk breyting á ástandi líkamans. Hættan á blóðtappa hefur nefnilega þegar minnkað og samtímis byrja lungun að losa sig við slím. Þetta getur valdið hósta í byrjun en eftir þrjá sólarhringa byrja berkjurnar, sem hingað til hafa verið í yfirvinnu, að slaka á. Eftir þrjá sólarhringa áttu auðveldara með andadrátt. Næstu vikur fer blóðrásin smám saman batnandi og mótstaða lungnanna gegn sýkingum hefur aukist. Eftir þriggja mánaða reykbindindi kemur þú áreiðanlega til með að finna mun. Öndunin verður auðveldari, þú verður þróttmeiri, og húðin fær frísklegri lit vegna aukins súrefnisflæðis. Auk þess hættir hröð öldrun húðarinnar sem er ein af afleiðingum reykinga. Næstu mánuði verður æ meiri ávinningur fyrir líkamann af reykleysinu, bæði heilsufarslega og útlitslega séð.
Mundu að draga andann djúpt öðru hverju og finna hve dásamlegt er að geta dregið andann léttara!
Stóru skrefin
Nú ertu komin/kominn vel á veg með heilbrigðara líferni. Einum til tveimur árum eftir daginn áður en þú hófst reykbindindi hafa líkurnar á blóðtappa í hjarta þegar minnkað um helming. Rúmlega fimm árum eftir að drepið var í síðustu sígarettunni hafa líkurnar á ýmiss konar krabbameini, eins og munnhols-, vélinda-, briskirtils- og leghálskrabbameini, þegar minnkað um helming. Auk þess getur þú á næstu fimm árum glaðst yfir því að hættan á blóðtappa fer minnkandi og verður á sama stigi og hjá þeim sem hafa aldrei reykt. Jafnframt er hættan á lungnakrabbameini helmingi minni samanborið við reykingafólk um það bil tíu árum eftir að hætt er að reykja. Það er því full ástæða til að kveðja fyrir fullt og allt skaðlegu sígaretturnar.
Þrátt fyrir að þú gerir þér grein fyrir hvernig reykleysi getur bætt líkamsástand, bæði þegar til skemmri og lengri tíma er litið, getur hvatinn minnkað og löngunin náð yfirhöndinni. Slíkan ávana er ekki auðvelt að losa sig við og það er mikilvægt að þú hafir í huga að reykbindindi er ekki dans á rósum. Það þýðir þó ekki að þú þurfir að berjast hjálparlaust við reykingalöngunina. Það er hægt að sækja sér góða hjálp og beita aðferðumsem geta nýst á vegferðinni að heilbrigðara líferni.